English | Íslenska 0 hlutir í körfunni, samtals 0 Kr.
17.5.2015 - Skráning í veiđibćkur
Nú í upphafi veiðitímabilsins er rétt að huga að skráningu afla í veiðibækur. Rétt skráning aflans í veiðibækur er mjög mikilvæg fyrir alla sem að veiðimálum koma. Þetta á ekki síður við þó veitt sé samkvæmt veiða-sleppa aðferð. Flestir veiðimenn hafa áhuga á að vita hvernig aflabrögð hafa verið í ánni sem þeir eru að fara að veiða, á hvað er veitt, tegundarsamsetningu o.s.frv. Veiðimálastofnun fylgist með þróun veiðinnar í ánni frá ári til árs og er þá mikilvægt að upplýsingar séu sem nákvæmastar og réttastar. Það verður að segjast eins og er að skráning í veiðibækur undanfarin ár hefur ekki verið nægjanlega góð og langar okkur leigutaka að biðja veiðimenn að vanda skráningu á núverandi veiðitímabili. Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að veiðimaður taki sér tíma til lengdarmælingar og skráningar upplýsinga um hvern veiddan fisk, sama hversu margir fiskar eru veiddir.
Það sem einkum hefur vantað upp á í skráningar er að merkja við hvort fiski hafi verið sleppt og heiti veiðistaðar vantar oft á tíðum.  Þó veiða-sleppa aðferð sé í gildi í Litluá er óhjákvæmilegt að drepa eitthvað af fiskum sem særast við veiðarnar og er mjög áhugavert að vita hversu hátt hlutfall þetta er af heildarafla. Í veiðibókunum er dálkur sem merkja á við þegar fiski er sleppt.  Auðvitað væri betra ef þetta væri á hinn veginn í veiða-sleppa á en svona er þetta nú í bókum Veiðimálastofnunar.  Á nýju veiðikorti Litluár eru veiðistaðir númeraðir og því einfaldast að skrá númer veiðistaðar í bókina þó heiti veiðistaðarins megi gjarnan fylgja líka. Því miður eru númer veiðistaða ekki á skiltum við veiðistaðina en það stendur til bóta með nýjum skiltum. Alltaf skal merkja við tegund, þ.e. "Lax", "Urriði" eða "Bleikja" og síðan einnig hvort fiskurinn er "Sjógenginn" eða "Staðbundinn" ef veiðimaður getur greint það. Þá þarf að skrá lengd fisksins en einfaldara er að mæla lengdina en að vigta fisk sem á að sleppa. Síðan er auðvitað alltaf áhugavert að vita hvaða flugu fiskurinn tók en síðast en ekki síst er nauðsynlegt að skrá númer merkis ef merktur fiskur er veiddur. Sjá dæmi um útfyllingu fremst í hverri veiðibók.

Til baka
MYNDIR

Litlaá í Kelduhverfi | Keldunesi | Sími 465 2275 | litlaa@live.com