English | Íslenska 0 hlutir í körfunni, samtals 0 Kr.
14.8.2011 - Góđur júlí viđ Litluá
Egill Ingibergsson sem dvaldi með fjölskyldu sinni að Nýjabæ á bökkum Litluár í júlí, sendi okkur þennan skemmtilega pistil og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.

Við áttum yndislegan júlímánuð í Kelduhverfinu fjölskyldan. Náttúrufegurðin og fuglalífið heilluðu okkur algerlega og Litlaáin með sína mögnuðu fiska var kremið á þeirri gómsætu tertu.

Veðrið í júlí var frekar kalt fyrripart mánaðarins en það hlýnaði mjög uppúr miðjum mánuði. Varla er hægt að segja að deigur dropi hafi komið úr lofti fyrr en alveg undir mánaðarmót. Yfirleitt var hafgola yfir daginn en logn frá kvöldi til morguns. Gestir komu og veiddu, sumir vel en aðrir minna, enda misvanir. Ég veiddi alls í 8 daga, yfirleitt hálfan í senn. Heildarveiðin var 76 fiskar og meðallengd 48,2cm. Sá stærsti var 66cm hrygna og var yfir 4 kíló. Fyrsta sjóbirtinginn, ofan við ósinn, fékk ég skömmu áður en heim var haldið eða 4. ágúst. Ég veit að einn um 2,5kg fékkst á svæði 6 þann 7. ágúst, svo hann er að mæta sá silfraði. Umtalsvert er af bleikju í ánni, mest varð ég var við hana á svæðum 3 og 4. Hún virðist almennt stærri en undanfarin ár, mikið í kring um 44-48cm. Urriðinn virtist magur í byrjun júlí en braggaðist mikið er leið á mánuðinn og stóru fiskarnir í lok júlí voru allir sverir og sterkir, eins og þeir eiga að sér að vera. Nokkrar áhyggjur hef ég af því hvað ég sá lítið af hornsíli, en það skapast e.t.v. af því að ég er oftast við veiðar í september og aðstæður þá aðrar en um mitt sumar.

 
Þessi mynd er tekin um miðjan júlí á miðnætti. Hér sér niður eftir ánni neðan við Nýjabæ.
 
Að geta veitt til eitt eftir miðnætti á björtum sumarnóttum er sannarlega einn af lyklum góðrar veiði í Litluá í júlí. Án þess ég hafi tekið það nákvæmlega saman, get ég fullyrt að fram til 20. júlí veiddi ég langflesta fiskanna sem ég fékk milli 7 og 9 á morgnanna og milli 21 og 01 á kvöldin. Það er frekast að bleikjan gefi sig í sólinni og birtunni. Ég fagna sannarlega þessum rýmkaða kvöldveiðitíma en sakna þess mikið að geta ekki veitt á langbesta veiðitímanum á björtum og stilltum nóttum í júní og júlí.
 
Lómurinn í miðið er Kolbeinn ungi. Honum kynntist ég 17. júlí, þá bara egg á árbakkanum og ég hafði næstum stigið á hann. Þarna er hann, öllu sprækari, þann 30. Sannarlega seint á ferðinni enda voru maí og júní víst afar kaldir.
 
Egill Ingibergsson


Til baka
MYNDIR

Litlaá í Kelduhverfi | Keldunesi | Sími 465 2275 | litlaa@live.com